Viðskipti innlent

Ísland hagstæðasti staðurinn fyrir gagnaver

mþl skrifar
Advania rekur gagnaverið Thor Data Center á Völlunum í Hafnarfirði.
Advania rekur gagnaverið Thor Data Center á Völlunum í Hafnarfirði.

Ísland er afar ákjósanlegur staður fyrir uppbyggingu netþjónabúa. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun af alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu BroadGroup. Í skýrslunni kemur fram að Ísland uppfylli öll skilyrði sem lögð séu til grundvallar við uppbyggingu gagnavera. Hér sé að finna ódýra og græna orku og mikið orkuöryggi, auk þess sem nettengingar við umheiminn séu sterkar. Þá séu stofnanir traustar og viðskiptaumhverfi hagstætt.

Raunar telur BroadGroup að ódýrast sé að reka gagnaver á Íslandi sé litið til lengri tíma. Þannig sé umtalsvert ódýrara að reka gagnaver á Íslandi en í Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð, Singapúr og Hong Kong en þessir staðir hafa verið leiðandi í uppbyggingu gagnavera hingað til. Loks kemur fram í skýrslunni að áætluð sé umfangsmikil uppbygging gagnavera á næstu árum enda vaxi internetumferð um 40 til 60% á ári í þróuðum ríkjum og enn hraðar í vanþróaðri ríkjum. Áætlar Microsoft þannig að 50 milljörðum Bandaríkjadala, jafngildi ríflega 6.000 milljarða króna, verði varið í uppbyggingu gagnavera á þessu ári. Þá telur Microsoft að þessi tala vaxi um ríflega 50% til ársins 2020. Tvö gagnaver hafa þegar verið reist á Íslandi, annars vegar Advania Thor Data Center í Hafnarfirði og hins vegar gagnaver Verne Global í Reykjanesbæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×