Viðskipti innlent

Óvissa ríkir um gengislán upp á milljarða

þj og khn skrifa
Dómur Hæstaréttar hefur mikið fordæmisgildi
Dómur Hæstaréttar hefur mikið fordæmisgildi Fréttablaðið/Pjetur

Óvissa ríkir um afdrif þúsunda skammtímalána að verðmæti milljarða króna eftir dóm Hæstaréttar í gær, skv. áliti lögmanns.

Dómurinn kvað á um að óheimilt sé að reikna seðlabankavexti afturvirkt á skammtímalán, þar á meðal bílalán, eftir að gengistryggð lán voru dæmd ólögleg árið 2010. Málið í gær fjallaði um 7 ára lánasamning upp á 5 milljónir króna sem SP fjármögnun, sem nú er hluti af Landsbankanum, gerði við Plastiðjuna um kaup á bifreið.

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Plastiðjunnar, telur ljóst að fordæmisgildi málsins sé mikið. „Það tekur bæði til þúsunda lánasamninga og til fjármálafyrirtækjanna í heild sinni. Hér var ekki fjallað um lánsformið sem slíkt, svo málið hefur afar víðtæka skírskotun. Þeir fjárhagslegu hagsmunir sem hér er um að tefla hlaupa á milljörðum króna.“ Einar Hugi hvetur fólk til að kanna réttarstöðu sína. „Auðvitað ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fjármálafyrirtækin hefjist handa við að endurreikna þessi skammtímalán.“

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði að nú væri verið að skoða afleiðingar dómsins. „Við þurfum að gera þetta mjög vandlega því það er mikið undir í þessu máli fyrir okkur og mikilvægt að við vöndum okkur við úrlausn þess,“ sagði Kristján. Hann vonast til þess að málin skýrist frekar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×