Viðskipti innlent

Svartsýnir á brátt afnám hafta

Forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóða landsins eru svartsýnir á að það takist að afnema gjaldeyrishöftin á næstu árum. Einungis um tólf prósent forsvarsmanna lífeyrissjóða telja að þeir fái á ný heimild til erlendra fjárfestinga á næstu fimm árum.

Um þetta var fjallað í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í gær. Sagði greiningardeildin þar frá niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var meðal forsvarsmanna lífeyrissjóðanna í nóvember í tengslum við meistaraverkefni Elvars Inga Möller, starfsmanns greiningardeildarinnar, frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Leiddi könnunin í ljós að forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóða landsins, sem samanlagt ráða yfir um 85% af hreinni eign sjóðanna, telja mjög ólíklegt að þeir fái að nýju heimild til erlendra fjárfestinga.

Þóttu um 4% líkur á því að heimildin fengist á næstu þremur árum, um 12% líkur á því að heimildin fengist á næstu fimm árum og tæplega 45% líkur á því að heimildin fengist á næstu tíu árum. Mikilvægt er fyrir lífeyrissjóði að geta fjárfest erlendis út frá áhættudreifingarsjónarmiðum en hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna hefur lækkað jafnt og þétt eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×