Viðskipti innlent

Telja fyrirheit stjórnarsáttmálans um samráð lofa góðu

Þorgils Jónsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, og
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, og Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ.

Aðilar vinnumarkaðarins telja margt jákvætt í stjórnarsáttmálanum sem formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynntu í gær. Helst séu það fyrirheit um aukið samráð varðandi hagsmunamál atvinnulífsins og launþega. Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að sambandið sé reiðubúið til að eiga samstarf við ríkisstjórnina um þessi mál.

„Það er ekkert þarna sem beinlínis stuðar mann og mér finnst lagt upp í samvinnu og samráð. Orðalagið er æði almennt en ég reikna með því að ef laða á ólíka aðila til samstarfs geti það verið kostur, ef markmiðin eru skýr, að ríkisstjórn sem á að hafa forgöngu um þessi mál sé ekki búin að binda sig svo niður í lausnirnar að í boði sé bara samstarf um þeirra skoðun.“ Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), tekur í sama streng.

„Ég tek því fagnandi því ég tel mikilvægt að betra og víðtækara samstarf en verið hefur verði um þau stóru mál sem fram undan eru.“ Þar á Þorsteinn ekki síst við komandi kjaraviðræður í haust.

„Ef við ætlum að ná nýrri þjóðarsátt krefst hún mjög náins og góðs samstarfs milli aðila vinnumarkaðsins og ríkisstjórnar,“ segir hann og bætir því við að hann fagni áherslum í stjórnarsáttmálanum hvað varðar aga í ríkisfjármálum, sem leiki lykilhlutverk í aðkomu ríkisstjórnar að næstu kjarasamningum.

Varðandi kjaraviðræðurnar segir Gylfi að útlit sé fyrir að samið verði til skamms tíma til að byrja með.

„En kannski verður svo hægt, á grundvelli nánara samráðs um einstaka mál, að skoða lengri samning.“ Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, fagnar einnig áherslunni á aukið samráð. „Almennt líst okkur vel á þennan stjórnarsáttmála og vonum að efndirnar verði góðar.“

Hvað varðar einstaka málaflokka eru SA og ASÍ hlynnt áformum um lækkun tryggingagjalds, en Gylfi setur þó þann fyrirvara að svigrúm til lækkunar taki tillit til stöðu atvinnuleysistryggingasjóðs. Elín Björg segir jákvætt að sjá aukna inngjöf í heilbrigðismálin, en meira mætti gera í öðrum velferðarmálum „þar sem mest hefur verið skorið niður síðustu árin“.

„Svo vonumst við til að næsta ríkisstjórn muni koma til með að halda áfram vinnu gegn kynbundnum launamun og ég fagna því að ákvæði um slíkt sé að finna í sáttmálanum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×