Viðskipti innlent

Samningur gegn mengun í hafi

Svavar Hávarðsson skrifar
Undirritun Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands á fundinum.
Undirritun Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands á fundinum. mynd/utanríkisráðuneytið

Samningur um gagnkvæma aðstoð norðurskautsríkjanna vegna olíumengunar í hafi var undirritaður á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins.

Fundurinn var haldinn í Kiruna í Norður-Svíþjóð í gær. Í sameiginlegri yfirlýsingu um framtíðaráherslur ráðsins segir að gríðarmikil tækifæri felist í efnahagslegri þróun norðurslóða og samstarf á því sviði verði forgangsmál í störfum ráðsins.

Í því ljósi verður samstarf ríkjanna styrkt á sviði umhverfismála og borgaralegs öryggis og segir þar að loftslagsbreytingar séu mikið áhyggjuefni og ríkin muni vinna saman að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Á fundinum var samþykkt að veita Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Singapúr og Suður-Kóreu áheyrnaraðild að ráðinu. Tekin var ákvörðun um að ESB fái áheyrnaraðild þegar niðurstaða hefur fengist varðandi útfærslu á undanþágum fyrir frumbyggja á banni á sölu á selaafurðum til ESB.

Í ávarpi Íslands var fagnað þeim árangri sem Norðurskautsráðið hefur áorkað frá stofnun þess og ráðið hafi eflst á sviði vísinda, sem og varðandi stefnumarkandi umfjöllun um málefni norðurslóða. Þar ber hæst samninga um leit og björgun og um viðbrögð gegn olíumengun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×