Viðskipti innlent

Gjaldtaka í Mývatnssveit 2014

Við Námafjall.
Við Námafjall. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við þetta verður ekki unað lengur. Ástandið hefur lengi verið hræðilegt og er því miður komið á hættustig.“

Þetta segir Ólafur H. Jónsson, formaður Landeigenda Reykjahlíðar ehf. sem hefur ákveðið að hefja gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum á landareigninni á næsta ári; við svæðið vestan Dettifoss, Leirhnjúkssvæðið og hverina austan Námafjalls.

„Í raun og veru ættum við að loka svæðinu við hverina. Það er stórhættulegt, bara leðja og drulla. Við getum ekki haldið svona áfram. Það þarf göngupalla, útsýnispalla og salerni. Það eru hvorki salerni við hverina, bílastæði við Dettifoss né hér í Reykjahlíð. Að byggja upp aðstöðu bara við hverina myndi kosta um 100 milljónir varlega áætlað en við höfum ekki efni á því að leggja fram 50 prósent á móti því sem kemur úr sjóðum,“ segir Ólafur.

Hann segir Landeigendur Reykjahlíðar ehf. vonast til að aðrir aðilar í Mývatnssveit verði í samstarfi með þeim. „En við höfum ekki tíma til að bíða eftir því hvað aðrir gera.“

Að sögn Ólafs koma um 300 þúsund ferðamenn til Mývatns á hverju ári og umferðin er því mikil. „Útlendingar vilja borga til þess að ferðamannastaðir eyðileggist ekki.“

Ólafur tekur fram að ákvörðun um náttúruverndargjaldið verði tekin með góðum fyrirvara þannig að ferðaþjónustan hafi aðlögunartíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×