Viðskipti innlent

Súrt epli sem Alcoa Fjarðaál verður að bíta í

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Frá Kárahnjúkavirkjun. Vatnshæð Hálslóns hefur aldrei verið lægri en nú.
Frá Kárahnjúkavirkjun. Vatnshæð Hálslóns hefur aldrei verið lægri en nú. Fréttablaðið/Pjetur
Alcoa Fjarðaál neyðist til þess að draga úr álframleiðslu í júní nema veðurfar á Austurlandi verði sérlega hagstætt næstu vikurnar.

Vegna tíðarfars er óvenju lítið vatn í Hálslóni og því er útlit fyrir að Kárahnjúkavirkjun framleiði ekki næga orku á næstunni til að þjónusta álverið.

„Þetta hefði þau áhrif á okkar starfsemi að við þyrftum að draga úr framleiðslu. Það er mikið mál en við myndum annaðhvort lækka hjá okkur straum, taka nokkur ker úr rekstri eða þá gera hvort tveggja,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi.

Samkvæmt bréfi sem Landsvirkjun hefur sent Fjarðaáli lítur út fyrir að Landsvirkjun þurfi að skerða þá orku sem Fjarðaál fær um ríflega 10% tímabundið. Landsvirkjun þarf þó ekki að bæta Fjarðaáli orkutapið þar sem um er að ræða svokallaða ótrygga orku sem heimilt er að skerða samkvæmt orkusölusamningi fyrirtækjanna.

„Við þurfum því að bíta í þetta súra epli en við erum auðvitað í samskiptum við Landsvirkjun um málið og ætlumst til þess að allir vinni í þá átt að við fáum það rafmagn sem við höfum samið um,“ segir Magnús Þór.

Staða yfirborðs Hálslóns, sem miðlar Kárahnjúkavirkjun, og Þórisvatns, sem miðlar Vatnsfellsvirkjun, hefur ekki verið verri síðan árið 1999 þar sem vorleysinga er enn beðið. Vatnshæð Hálslóns hefur aldrei verið lægri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×