Viðskipti innlent

Já í tilraunir með þrívíddarkort

Þorgils Jónsson skrifar
Notendum kortavefs Já gæti staðið til boða að skoða kortin eins og þeir standi á götunni, ef fram fer sem horfir. Myndavélabíllinn fer af stað í dag.
Notendum kortavefs Já gæti staðið til boða að skoða kortin eins og þeir standi á götunni, ef fram fer sem horfir. Myndavélabíllinn fer af stað í dag. Fréttablaðið/Daníel
Upplýsingaveitan Já, sem rekur meðal annars vefinn já.is, hefur í dag tilraunaverkefni sem miðar að því að gera þrívíddarmyndir af íslenskum vegum aðgengilegar á kortavefum fyrirtækisins.

Þessi þjónusta yrði að erlendri fyrirmynd, en tæknirisinn býður upp á Google Street View á kortavef sínum þar sem sjónarhorn notanda er frá götunni. Sú þjónusta Google er ekki í boði á Íslandi sem stendur.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir í samtali við Fréttablaðið að undirbúningur verkefnisins sé aðeins á byrjunarstigi. Tækjabúnaðurinn sé nýkominn til landsins og prófanir hefjist í dag. Enn liggi ekkert fyrir um hvort og hvenær þjónustan verði tekin í notkun, það muni þó skýrast á næstu dögum.

„Við köllum verkefnið „Já 360“ og ætlum einmitt að nýta þetta myndefni til að bæta inn á kortin hjá okkur, ef tilraunir næstu daga takast eins og við erum að vona,“ segir Sigríður.

„Við horfum að sjálfsögðu til fjölfarinna vega en ekki síður til vinsælla ferðamannastaða til að nýta fyrir ferðaupplýsingavefinn okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×