Viðskipti innlent

Gagnrýndi vaxtastefnu SÍ harkalega

Kolbeinn Óttarsson Proppe skrifar
Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson, stjórnarformaður Íslandsstofu, gagnrýndi vaxtastefnu Seðlabanka Íslands (SÍ) í ræðu sinni á ársfundi stofunnar og sagði stjórnvöld í raun ráðalaus gagnvart henni.

Friðrik sagði að SÍ hefði haldið stýrivöxtum svo háum eftir hrun að fjölmargir hagsmunaaðilar, svo sem stjórnvöld og forsvarsmenn atvinnulífs og launþegahreyfinga, hefðu lýst áhyggjum sínum af því. Þá hefðu háir vextir leikið heimilin illa. Margt hefði verið rætt um nauðsyn á sjálfstæði Seðlabanka, en fyrr mætti nú rota en dauðrota.

„Erum við komin með fjórskiptingu ríkisvaldsins eða hvaða aðra skýringu má finna á því að ráðherrar ríkjandi stjórnar virðist bíða í ofvæni eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans í hvert skipti? Mun hún falla að stefnu ríkisstjórnarinnar í peningamálum og öðrum málum? Oftar en ekki lýsa þeir því yfir að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Og svo hvað? Jú, svo bíðum við aftur í mánuð.“

Friðrik benti á að 43 prósent af þeim sem sæti tækju á Alþingi eftir kosningar gerðu það í fyrsta skipti. Ábyrgð þeirra sem fyrir væru væri mikil og þeir yrðu að taka vel á móti þeim og tryggja að vinnubrögðin tryggðu Alþingi aukna virðingu.

„Bankabólan er að baki eða er það ekki? Ég óttast að enn ein bólan sé í uppsiglingu og við getum átt á hættu slæmar afleiðingar ef við tökum ekki á málum nú þegar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×