Viðskipti innlent

Þjónar 300 milljónum notenda

Þeir Anthony Nichols, framkvæmdastjóri hjá Opera Software, og Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, voru glaðbeittir í höfuðstöðvum Advania í gær.
Þeir Anthony Nichols, framkvæmdastjóri hjá Opera Software, og Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, voru glaðbeittir í höfuðstöðvum Advania í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Advania gekk í gær frá samningi við norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software um stóraukin umsvif Opera í Advania Thor-gagnaverinu í Hafnarfirði. Samningurinn felur í sér tæplega tvöföldun á umsvifum Opera en félagið notar gagnaverið til að þjóna 300 milljónir notenda Opera Mini-netvafrans.

„Þessi samningur er mjög mikilvægur fyrir Advania. Þarna erum við að víkka út mjög gott samstarf við Opera sem hefur verið kjölfestan í starfsemi gagnaversins í Hafnarfirði. Opera fer úr 1.300 netþjónum í 2.100 en til að setja þessar stærðir í samhengi má nefna að gagnamagnið sem er nýtt við þetta er meira en allt annað gagnamagn á Íslandi til samans,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og bætir við að þessi samningur sé traustsyfirlýsing fyrir hinn unga gagnaversiðnað á Íslandi.

Anthony Nichols, framkvæmdastjóri á upplýsingatæknisviði Opera Software, segir margar ástæður fyrir því að fyrirtækið kaupi gagnaversþjónustu á Íslandi. „Ein mikilvæg ástæða er sú að orkan á Íslandi er græn, sem passar við okkar áherslur. Þá er orkan tiltölulega ódýr, sem skiptir miklu máli,“ segir Nichols en Opera var í hópi fyrstu viðskiptavina gagnavers Advania árið 2010.

Þá segir Gestur að þótt orkan á Íslandi sé ódýr borgi viðskiptavinir gagnaversins mun hærra verð fyrir en til dæmis stóriðjan. Því fái íslenskt þjóðarbú meiri framlegð frá orkunni sé hún nýtt í þessum iðnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×