Fastir pennar

Salt, sykur og fleira gott

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Talið er að rekja megi 86 prósent dauðsfalla í Evrópu til svokallaðra ósmitnæmra sjúkdóma. Þetta eru sjúkdómar eins og hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sykursýki og margir aðrir sjúkdómar. Þessa sjúkdóma má að meira eða minna leyti rekja til lífshátta fólks. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fullyrðir að koma mætti í veg fyrir þorra þessara sjúkdóma með viðeigandi ráðstöfunum, þ.e. með heilnæmari lífsháttum og þá ekki síst mataræðis. Matargerð hefur undanfarin ár og áratugi færst meira og meira út af heimilum. Í stað þess að keypt séu (eða safnað eða ræktuð) hráefni sem fullljóst er hver eru og úr þeim eldaður matur heima í eldhúsi er tekin við tilvera þar sem maturinn sem neytandinn ber heim í eldhús er oft fulleldaður og iðulega er allsendis óljóst hvaða hráefni hafa komið við sögu. Auk þess að stytta tímann sem fer í matarundirbúning er þessi matur ódýr enda farnar ódýrar leiðir í hráefnisvali. Hins vegar er yfirleitt hvorki farið sparlega með salt né sykur, efnin sem líklega eru mestu heilsufarsskaðvaldar samtímans. Í frétt blaðsins í dag er sagt frá því að breska læknatímaritið Lancet sakar stór fjölþjóðleg matvælafyrirtæki um að grafa undan heilbrigðismarkmiðum til þess að geta grætt á þeim bráðóholla mat sem þau framleiða. Þetta gera fyrirtækin með því meðal annars að beita áhrifum sínum til að hafa áhrif á opinberar reglur um matvælaframleiðslu. Aðferðum matvælafyrirtækjanna er í Lancet líkt við aðferðir sem beitt var í tóbaksiðnaðinum áratugum saman. Höfundar greinarinnar í Lancet benda á að matvælafyrirtækin eigi með söluvöru sinni ríkan þátt í því hversu algengir hinir svokölluðu ósmitnæmu sjúkdómar eru. Vísindamennirnir hvetja stjórnvöld til að herða reglur um matvælaframleiðslu til að stuðla að betra heilsufari fólks. Læknarnir bresku telja að fræðsla og forvarnir hafi ekki sömu áhrif og lög og reglur sem hafa það markmið að auka hollustu matar. Um það skal ekki fullyrt en víst er að þekking á skaðlegum áhrifum þessara efna skaðar nú varla. Sömuleiðis verður að leggja áherslu á að hvetja neytendur til meðvitundar um það úr hvaða hráefnum sá matur sem þeir neyta er. Um helgina bárust þær fréttir að allt að þriðjungur Breta hygðist hætta að neyta tilbúins matar eftir hrossakjötshneykslið sem hefur verið fyrirferðarmikið í evrópskum fjölmiðlum undanfarna daga. Tíminn mun leiða í ljós hverjar efndirnar verða en verði hrossakjötshneykslið til þess að auka kröfur neytenda um að vita hvað þeir setja inn fyrir varir sínar þá hefur það leitt til einhvers góðs. Víst er að neysluvenjur, og þar með óhollur matur, eru að miklu leyti rót heilbrigðisvanda hins vestræna heims. Hvert ár færir heim meiri þekkingu á þessu. Þá þekkingu verður að nýta til úrbóta á öllum sviðum.





×