Handbolti

Spánverjar vilja fá gull

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er ætlast til þess að Rivera skili gulli.nordicphotos/getty
Það er ætlast til þess að Rivera skili gulli.nordicphotos/getty
Heimsmeistaramótið hefst klukkan 18.00 í kvöld. Heimamenn, Spánverjar, taka þá á móti Alsír í Madríd. Spánverjar eru með geysisterkt lið og eru sigurstranglegastir hjá veðbankanum Betfair. Frakkar og Króatar koma þar á eftir og loks Danir.

Mikil pressa er á spænska landsliðinu að landa heimsmeistaratitlinum á heimavelli. Valero Rivera er búinn að þjálfa liðið í fjögur ár og hefur ekki enn komið liðinu í úrslit á stórmóti.

„Við höfum verið nálægt því að fara alla leið undanfarin ár en þetta tækifæri er sögulegt," sagði Rivera en hann segir að drápseðlið hafi vantað í sitt lið á ögurstundum.

„Við erum með marga sterka leikmenn og það er mismunandi hvaða menn taka af skarið. Hópurinn er nógu sterkur til þess að fara í gegnum svona gott mót en það hefur vantað ýmislegt á úrslitastundu," sagði Rivera en hann stefnir á gull með sínu liði.

„Í fyrsta skiptið erum við sigurstranglegasta liðið og það mun hjálpa okkur að vera á heimavelli. Frakkar eru samt meistarar og með ótrúlegt lið. Danmörk og Króatía eru líka afar sterk og svo má ekki gleyma liðum eins og Þýskalandi, Rússlandi og Póllandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×