Viðskipti innlent

Betri staða styður krónuna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands

Jákvæð þróun utanríkisviðskipta og hreinnar erlendrar stöðu þjóðarbúsins getur stutt við gengi krónunnar þegar kemur að stórum gjalddögum í erlendri mynt á vordögum. Þetta kemur fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka.

Seðlabanki Íslands birti í vikunni tölur um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á fyrsta fjórðungi ársins, auk greiningar undirliggjandi erlendrar stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins. „Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins virðist ívið skárri en talið var fyrr á árinu,“ segir í umfjöllun Greiningar.

„Þá byrjar árið vel hvað undirliggjandi jöfnuð á utanríkisviðskiptum varðar, og hefur það væntanlega hjálpað til að milda áhrif stórra gjalddaga á vordögum á gengisþróun krónu.“

Fram kemur í tölum Seðlabankans að afgangur er á viðskiptajöfnuði á fyrsta fjórðungi ársins, hvort sem horft er til talna með eða án gömlu bankanna og slitameðferðar þeirra.

Með bönkunum er viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um 5,6 milljarða króna og um 14,4 milljarða að þeim undanskildum.

„Þetta má teljast harla gott, enda er fyrsti fjórðungur yfirleitt ekki beysinn hvað viðskiptajöfnuð varðar,“ segir í umfjöllun Greiningar. Halli á viðskiptajöfnuði var enda 45,6 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2012 og 15,2 milljarða halli að fráteknum slitameðferðarbönkunum.

Þá kemur fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka að túlkun á tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins sé nú orðin nokkuð einfaldari en áður, þar sem áhrif skipurits Actavis á erlendu stöðuna í bókum Seðlabankans séu nú mun minni en áður vegna sölu fyrirtækisins undir lok síðasta árs.

Án gömlu bankanna var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 453 milljarða króna í marslok. „Það jafngildir um það bil 25,5 prósentum af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins. Staðan batnaði um 38 milljarða króna frá upphafi ársins.“

Greining bendir á að erlenda staðan hafi ekki mælst betri í krónum talið frá því á fjórða ársfjórðungi 2000. „Að gömlu bönkunum meðtöldum eru erlendar skuldir hins vegar enn himinháar, eða sem nemur 12.846 milljörðum króna, og hrein staða neikvæð um 8.249 milljarða.“

Tölurnar segir Greining Íslandsbanka hins vegar hafa takmarkað upplýsingagildi þar sem stærstur hluti skulda gömlu bankanna verði afskrifaður við uppgjör þeirra.

„Samþykki kröfuhafar að gefa eftir verulegan hluta innlendra eigna búanna verður erlend staða þjóðarbúsins á endanum hagfelldari sem því nemur, en í mati á undirliggjandi erlendu stöðunni er ekki gert ráð fyrir slíkri niðurfærslu á þessum eignum.“

Orðskýring

Viðskiptajöfnuður sýnir samtímatekjur (útflutning) og -gjöld (innflutning) þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. „Ef tekjur eru umfram gjöld er talað um afgang á viðskiptum við útlönd en viðskiptahalla ef gjöldin eru umfram tekjur,“ segir á vef Seðlabanka Íslands.

Verg landsframleiðsla er verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ári.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×