Viðskipti innlent

Nubo reynir aftur

María Lilja Þrastardóttir skrifar

Zhongkun, fjárfestingarfélag Huangs Nubo, mun á næstu mánuðum gera aðra tilraun til að fá leyfi frá iðnaðarráðherra til langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Félaginu var í fyrstu tilraun neitað um ívilnunarsamning, þar sem fullnægjandi upplýsingar um áform Huangs þótti skorta.

„Við höfum verið að vinna að frágangi á málum með sveitarfélögunum á svæðinu og þeirri vinnu hefur miðað mjög vel,“ segir Halldór Jóhannsson, arkitekt og talsmaður Huangs Nubo á Íslandi, en hann vonast til að ný umsókn verði lögð inn nú í sumar. Þegar Zhongkun leggur inn umsóknina mun hún lenda á borði Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, nýs iðnaðarráðherra, en hún vildi ekki tjá sig um málið í gær. Hún hefur hinsvegar áður sagst jákvæð í garð áformanna.

Eftir að Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, hafnaði undanþágubeiðni Zhongkun um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum haustið 2011 hófust viðræður milli sveitarfélaga á Norðausturlandi um að kaupa jörðina og leigja hluta hennar svo til Zhongkun. Stofnuðu sex sveitarfélög á svæðinu að lokum félag utan um verkefnið og sömdu síðan á síðasta ári við Huang Nubo um skilyrði leigunnar. Sá samningur nægir Nuobo ekki því hann þarf fyrrnefndan ívilnunarsamning við iðnaðarráðuneyti Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×