Viðskipti innlent

Árangur af hóflegri nýtingarstefnu að skila sér

Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar segir að hin jákvæðu tíðindi sem birtast í nýrri skýrslu stofnunarinnar um ástand og horfur okkar helstu nytjastofna sé árangur af hóflegri nýtingarstefnu á síðustu árum.

Það vekur sérstaka athygli að hægt er að auka töluvert við þorskkvótann á næsta fiskveiðaári eða tæplega 20 þúsund tonn þannig að hann verði 215.000 tonn. Hefur ekki mátt veiða jafnmikinn þorsk við landið frá síðustu aldamótum.

Jóhann er að vonum ánægður með þennan árangur og segir að hann sé tilkominn vegna þeirra skerðinga sem gripið var til árin 2007 og 2009. “Þetta er greinilega að skila sér núna og við höfum fengið  meðalárganga af þorski frá þessum tíma sem verða uppistaðan í veiðunum á næstu árum,” segir Jóhann.

Stefnt á 250 þúsund tonn

Fram kemur í máli Jóhanns að ef svo heldur sem horfir sé hægt að auka þorskveiðarnar hægt og rólega á næstu árum þar til þær ná 250.000 tonnum árið 2017. “Það má einnig geta þess að hin hóflega nýtingarstefna okkar er að skila sér hvað aðra stofna varðar eins og ýsu, ufsa og karfa,” segir Jóhann. “Hvað ýsuna varðar var komið í veg fyrir að sá stofn hryndi og við getum bætt aðeins við ýsukvótann á næsta fiskveiðaári.

Helsta neikvæða fréttin í skýrslunni er að útlit er fyrir lélega loðnuverðtíð á næsta fiskveiðaári. Jóhann segir að því miður bendi fyrstu mælingar til þess að loðnan muni ekki gefa mikið af sér. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×