Lífið

Danshátíð gegn barnabrúðkaupum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Danshátíð á vegum UN Women verður haldin í annað sinn í Kramhúsinu í kvöld, á alþjóðlegum degi stúlkubarnsins.

„Við ætlum að tileinka hátíðarhöldin í ár baráttunni gegn barnabrúðkaupum,“ segir Álfheiður Anna Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá UN Women.

„Dagurinn er haldinn til að vekja athygli á réttindum stúlkna og áskorunum og mannréttindabrotum sem eiga sér stað um allan heim. Þannig viljum við vekja athygli á deginum og fagna því sem þegar hefur unnist með því að dansa og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Álfheiður.

UN Women á Íslandi hafa farið mikinn gegn barnabrúðkaupum síðastliðið ár.

„Barnabrúðkaup eru gríðarlega stórt vandamál,“ útskýrir Álfheiður.

„Stúlkur eru tilneyddar í hjónaband á þriggja sekúndna fresti um víða veröld.“

UN Women vinna alla jafna að fjáröflun um allan heim sem snýr að jafnrétti og valdeflingu kvenna.

„Við erum að styrkja verkefni í Afríku sunnan Sahara, Suður- og Suðaustur-Asíu, í Miðausturlöndum og Karíbahafinu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Álfheiður jafnframt.

Það eru fjórir þaulreyndir kennarar sem koma til með að sjá um danskennsluna í kvöld.

„Ég er einn af kennurunum og kenni afródans, Margrét Erla Maack kennir Beyoncé-dans, Þórdís Nadia Semichat kennir magadans og Kristín Bergsdóttir kennir suðræna sveiflu. Við vildum taka dansstíla sem víðast að úr heiminum og reyna að sameina það svolítið þeim alþjóðlega vinkli sem við erum með í okkar starfi. Við vildum líka bjóða upp á sem flest svo að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Álfheiður og hvetur sem flesta til að láta sjá sig og styrkja gott málefni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.