Viðskipti innlent

Sif Cosmetics sækir á markaði í Suður-Afríku

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Jón Björnsson er nýr forstjóri ORF Líftækni, sem er móðurfélag Sif Cosmetics.
Jón Björnsson er nýr forstjóri ORF Líftækni, sem er móðurfélag Sif Cosmetics. Mynd/Stefán
Íslenska líftæknifyrirtækið Sif Cosmetics, sem er dótturfyrirtæki ORF Líftækni, hefur gengið frá samningum við snyrtivörukeðjuna Imbalie Beauty Inc, sem er ein stærsta keðja sinnar tegundar í Suður-Afríku. Samningurinn hljóðar upp á sölu og dreifingu á BIOEFFECT-húðvörum frá fyrirtækinu og eru vörurnar nú fáanlegar á um hundrað stöðum þar í landi.

Fyrir eru húðvörur frá Sif Cosmetics seldar í yfir 400 verslunum um allan heim, og þá helst í Evrópu og Asíu.

„Salan hefur gengið vonum framar allt frá því að vörurnar voru fyrst kynntar í vor. Þessi markaður skiptir okkur mjög miklu máli því þarna erum við að fara inn í hundrað búðir á einu bretti,“ segir Jón Björnsson, nýr forstjóri ORF Líftækni, en Jón tók til starfa nú í sumar.

BIOEFFECT-húðvörurnar innihalda svokallaðan EGF-frumuvaka, sem á að hraða á endurnýjun húðarinnar, en að baki liggja áratuga rannsóknir ORF Líftækni á líffræði húðarinnar.

„Fyrirtækið hefur verið að selja vörur sínar erlendis síðan árið 2011 og eru þær nú að slá í gegn í Suður-Afríku,“ segir Jón og bætir við að vörurnar séu sérstaklega vinsælar í heilsulindum og á snyrtistofum.

„Heilsulindir eru mjög víða í Suður-Afríku og hafði fyrirtækið samband við okkur að fyrra bragði eftir að hafa kynnst vörunum í London.“

Jón segir að vörurnar hafi vakið gríðarlega athygli erlendis sem að útskýri aukin umsvif. „Það er mikil viðurkenning fyrir félagið að komast inn í nýja heimsálfu og inn á nýjan markað og þessi samningur gefur vísbendingu um að það leynist mjög góðir markaðir annars staðar í heiminum, þó að þeir liggi langt í burtu.“

Að sögn Jóns hefur fyrirtækið haft það að leiðarljósi að reyna að finna landsvæði þar sem vitað er að snyrtivörumarkaðurinn er vaxandi.

BIOEFFECT-húðvörurnar eru alfarið framleiddar og fluttar út frá Íslandi. „Eitt af sérkennum vörunnar er að hún er framleidd að öllu leyti hér á landi og þar með helst virðisaukinn allur innanlands. Einnig er mikil áhersla lögð á íslenskan uppruna varanna,“ segir Jón og bætir við að framtíðarsýn fyrirtækisins sé að auka útflutning félagsins enn frekar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×