Viðskipti innlent

Stofna félag um byggingu hafnar á Dysnesi

Félagið Dysnes Þróunarfélag ehf.  verður stofnað í dag til uppbyggingar, markaðsstarfs og kynningar á Dysnesi við Eyjafjörð sem framtíðar hafnarsvæði  vegna þjónustu  við námu og olíuvinnslu fyrir norðan Ísland.

Í tilkynningu segir að Eimskip, Mannvit, Hafnasamlag Norðurlands, Slippurinn  Akureyri og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hafa stofnað með sér félagið í ljósi vaxandi möguleika Íslendinga vegna umsvifa á Grænlandi, olíuleitar og -borana úti fyrir norður Íslandi og aukinna pólsiglinga. Félagið mun koma að þróun og uppbyggingu hafnarmannvirkja á Dysnesi, sem er um 15 km norðan við  Akureyri. Þar  eru um 90 hektarar lands áætlaðir fyrir þessa þjónustu þar af 30 hektarar með landfyllingu.

Dysnes er mjög vel staðsett til slíkrar uppbyggingar en þar er nægt land auk þess sem hafnarskilyrði eru þar sérstaklega góð.  Byggðir verða bryggjukantar sem nýtast best fyrir þá þjónustu sem koma mun á svæðið og með það viðlegudýpi sem nauðsynlegt verður.  Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í áföngum og að fyrsti áfangi hefjist að loknu umhverfismati, sem ráðist verður í.  Heildarfjárfesting í svæðinu getur numið allt að 18 milljörðum á komandi árum.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar sér um daglegan rekstur

Eins og kunnugt er hefur Eimskip nýlega hafið strandsiglingar og eflt til muna leiðakerfi sitt til og frá landinu, m.a. til og frá Akureyri.  Þessu samfara hafa opnast miklir möguleikar fyrir fyrirtæki á norðanverðu landinu til að koma vörum sínum á erlenda markaði með skilvirkari hætti, auk þess sem innflutningshagræði eykst til muna.  

Slippurinn á Akureyri, sem er stærsta skipaviðhaldsstöð á Íslandi, hefur verið að efla starfsemi sína mikið á undanförnum misserum og sér í þessu samhengi margvísleg tækifæri til að auka sitt þjónustuframboð. Mannvit hefur verið í fararbroddi íslenskra fyrirtækja í þekkingarmiðlun og framsækni vegna verkefna á norðurslóðum, en að auki þá var Dysnes einn valkostanna sem  Mannvit mat í staðarvalsskýrslu félagsins vegna staðsetningar olíuþjónustuhafna á norðanverðu Íslandi.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar mun sjá um daglegan rekstur félagsins og mun Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson veita því forstöðu.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×