Viðskipti innlent

Hagnaður Arion banka þrefalt minni en í fyrra

Hagnaður Arion banka á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 1,4 milljarði króna eftir skatta samanborið við 4,5 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu segir að arðsemi eigin fjár var 4,3% samanborið við 16,5% á sama tímabili í fyrra. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 6,3% en var 12,5% á sama tíma árið í fyrra. Heildareignir námu 907,5 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna í árslok 2012.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 24,1% en í lok árs 2012 var það 24,3%.

„Uppgjör fyrsta ársfjórðungs er nokkuð undir  væntingum. Þrátt fyrir að vaxtatekjur og þóknanatekjur séu í meginatriðum í takt við áætlanir hafa breytingar á verðmæti lána og sérstaklega gengisbreytingar veruleg neikvæð áhrif á uppgjörið,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka í tilkynningu um uppgjörið

„Einnig er 500 milljón króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Valitor færð til gjalda á tímabilinu og hefur það ennfremur neikvæð áhrif á arðsemi bankans. Það er þó mikilvægt að áfram er góður stöðugleiki í grunnstarfsemi bankans og undirliggjandi efnahag. Eiginfjárhlutall bankans er rúm 24% sem er vel yfir kröfum FME og sýnir góða stöðu bankans.

Á fyrsta fjórðungi ársins lögðum við áherslu á að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans. Við héldum áfram sértryggðri skuldabréfaútgáfu hér á landi með útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa og Arion banki varð fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja frá árinu 2007 til að gefa út skuldabréf í erlendri mynt þegar bankinn gaf út skuldabréf í norskum krónum. Þetta var ekki stór útgáfa en þeim mun mikilvægari. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf að helstu fjármálafyrirtæki landsins hafi aðgang að erlendum lánamörkuðum. Þarna var stigið mikilvægt skref í þá átt. Við höfum síðan þá skynjað aukinn áhuga alþjóðlegra lánveitenda á bankanum og þróun mála hér á landi sem er jákvætt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×