Viðskipti innlent

Krónan kostar þjóðina 80 til 110 milljarða

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í A-hluta ríkisfjármála eru 69,6 milljarðar króna eyrnamerktir Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Í A-hluta ríkisfjármála eru 69,6 milljarðar króna eyrnamerktir Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Fréttablaðið/Hari

Ávinningur þjóðarbúsins af því að skipta út krónunni fyrir evru gæti numið 80 til 110 milljörðum króna á ári. Þetta kemur fram í útreikningum Benedikts Jóhannessonar, tryggingastærðfræðings, útgefanda og ritstjóra, í nýjasta tölublaði efnahagsritsins Vísbendingar.

Til samanburðar má nefna að heildarframleiðsluvirði íslensks landbúnaðar árið 2011 var 43 milljarðar króna. Þá er á fjárlögum ársins tæpum 70 milljörðum króna varið til mennta- og menningarmála.

Fram kemur að við útreikningin hafi ekki verið horft til kostnaðar landsins við að halda krónuni í núverandi stöðu, þar sem hún væri í raun ónýt sem gjaldmiðill því enginn vilji nota hana í alþjóðaviðskiptum, heldur hafi verið horft til „eðlilegs“ ástands. Þá byggir útreikningurinn að stórum hluta á gögnum frá Seðlabanka Íslands.

Meðal annars er vísað til þess að með nýjum gjaldmiðli sé talið að álag á innlenda raunvexti gæti lækkað um 1,5 prósent.

„Ef miðað er við 1.200 milljarða skuldir heimilanna er 1,5 prósent á ári um 18 milljarðar,“ segir í Vísbendingu.

Sparnaður fyrirtækja er talinn enn meiri, eða um 30 milljarðar. Að auki er lagt mat á áhrif lægri vaxta á landsframleiðslu, ávinning af auknum stöðugleika, áhrif til aukinna utanríkisviðskipta og fleiri þætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×