Viðskipti innlent

Vinnslustöðin greiðir 1,1 milljarð í arð

mynd úr safni
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hagnaðist um jafnvirði 2,3 milljarða króna árið 2012 og greiðir hluthöfum 1,1 milljarð króna í arð.

Heildartekjur voru 15,7 milljarðar króna og jukust um 6% frá fyrra ári, segir í tilkynningu frá félaginu sem hélt framhaldsaðalfund í dag.

Vegna nýlegs dóms Hæstaréttar þar sem ógilt var ákvörðun hluthafafundar í félaginu í september 2011 um samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf., hafi þurft að breyta ársreikningum Vinnslustöðvarinnar fyrir árin 2011 og 2012.

Ýmsar blikur séu á lofti á erlendum mörkuðum sem geti haft neikvæð áhrif á reksturinn. Verð á bolfisk- og síldarafurðum hafi lækkað verulega undanfarna mánuði og vart verði aukinnar tregðu í sölu humarafurða.

Afurðaverð mjöls og lýsis hafi hins vegar verið stöðugt. Efnahagur félagsins sé sterkur og skuldir hafi minnkað um 10% í evrum talið og numið 12,3 milljörðum króna í lok árs 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×