Viðskipti innlent

Tuttugu stærstu hluthafarnir eiga 70% af öllu hlutafé í Kauphöllinni

Tuttugu stærstu eigendur hlutafjár íslenskra félaga í Kauphöll Íslands eiga samtals um 70% markaðsvirðis hlutafjár m.v. þær upplýsingar sem listar stærstu hluthafa geyma.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Stærsti eigandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með rúmlega 9% af heildinni en þar á eftir koma fjárfestingarfélögin Eyrir og William Demant, stærstu hluthafar Marel og Össurar, og svo Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og tengdir sjóðir.

Samanlagt markaðsvirði félaganna í lok síðustu viku var 403 milljarðar kr. eða sem nemur 24% af landsframleiðslu ársins í fyrra.

Í Markaðspunktunum segir að listar yfir 20 stærstu hluthafa félaganna veita upplýsingar um eignarhald sem samsvarar 337 milljörðum kr. eða 84% af samanlögðu markaðsvirði félaganna. Af þessu að dæma ætti eignarhald íslenskra aðila að vera um 75% og eignarhlutur erlendra aðila um fjórðungur.

Danir og Bandarikjamenn stærstu erlendur eigendurnir

Stærstu erlendu fjárfestarnir á íslenska hlutabréfamarkaðinum eru danska fjárfestingarfélagið William Demant Invest sem á 41% hlut í Össuri og sjóðir bandaríska eignarhaldsfélagsins Yucaipa Companies eiga 25% í Eimskip. Að öðru leyti er erlenda hluthafa helst að finna á hluthafalistum Marel og Össurar.

„Það kemur líklega fáum á óvart lífeyrissjóðir eru stærstu hluthafar íslenska hlutabréfamarkaðarins. Með beinum hætti eiga lífeyrissjóðir a.m.k. 31% af hlutabréfum íslenskra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Til viðbótar eru lífeyrissjóðir óbeinir eigendur með því að eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum sem reknir eru af rekstrarfélögum,“ segir í Markaðspunktunum.

„Að auki eiga lífeyrissjóðir ríflegan meirihluta í Framtakssjóði Íslands, sem þar til nýverið var einn stærsti eigandi skráðra félaga í Kauphöllinni. Það verður því ekki annað sagt en að lífeyrissjóðirnir hafi staðið vel að því að reisa við íslenskan hlutafjármarkað í kjölfar hrunsins og notið góðs af auknum stöðugleika og verðhækkun síðustu misserin.

Lífeyrissjóðir eru stærstu fagfjárfestar landsins og í gegnum þá fjármagnar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga atvinnulíf á Íslandi. Á móti njóta sjóðfélagar ávöxtunar á lífeyriseign sína. Samkvæmt tölum Seðlabankans áttu íslenskir lífeyrissjóðir íslensk hlutabréf að virði 199 milljarða kr. í lok mars s.l. eða sem samsvarar 8% af eign sjóðanna. Til viðbótar áttu þeir 20 milljarða kr. í innlendum hlutabréfasjóðum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×