Lífið

Fimm mánaða frumburðurinn með í tökur

Sara McMahon skrifar
Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir stýrir þættinum Á fullu gazi með Finni Thorlacius.
Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir stýrir þættinum Á fullu gazi með Finni Thorlacius. Fréttablaðið/Daníel Rúnarsson
„Ég hrífst af öllu sem kemur blóðinu á hreyfingu og er með mótor,“ segir fjölmiðlakonan Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir sem kemur til með að stýra sjónvarpsþáttunum Á fullu gazi ásamt Finni Thorlacius. Þættirnir hefja göngu sína í nóvember og eru í anda Top Gear.

Að sögn Sigríðar Elvu eiga þættirnir að höfða jafnt til þeirra sem eru með króníska bíladellu og hinna er vilja aðeins gott sjónvarpsefni. „Finnur, sem er maðurinn með sérfræðiþekkinguna, hafði gengið með hugmyndina í nokkurn tíma. Yfirmenn mína á Stöð 2 rámaði eitthvað í að ég væri með tækjadellu og því var ég fengin sem meðstjórnandi,“ segir hún.

Sigríður Elva eignaðist sitt fyrsta barn í apríl og tekur þættina upp í miðju fæðingarorlofi. „Dóttirin mætir með í smink og myndatökur og verður líklega á hliðarlínunni á meðan á tökum stendur, enda er hún enn á brjósti og því ekki hægt að skilja hana eftir heima. Tökur hefjast eftir tvær vikur og ég hlakka til að komast aðeins af heimilinu og leika mér að tryllitækjum eftir fimm mánuði í brjóstaþoku,“ segir hún og hlær.

Ekur um á yfirbyggðri slátturvél

Aðspurð kveðst Sigríður Elva ekki keyra um á glæsikerru, þótt hana dreymi um að eignast slíka. „Ég keyri um á sjö ára gömlum Toyota Aygo sem er með vél á við garðsláttuvél. Ég átti áður Hondu CRX á „low profile-dekkjum“ og með tvöfalt púst sem vakti öfund flestra unglingspilta. Því miður varð ég að skipta á þeim bíl og yfirbyggðu sláttuvélinni.“

Spurð út í draumabílinn segir hún að hana langi helst að eignast stökkbreyttan ofurjeppa. „Svo ég gæti farið um hálendið. Mig hefur reyndar líka alltaf dreymt um að eignast skriðdreka, en það væru ópraktísk kaup þegar maður býr á Laugaveginum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.