Viðskipti innlent

Vöruverð lækkar í IKEA

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Nýr vörulisti IKEA kemur út á morgun með lækkuðu verði á 1.200 vörum.
Nýr vörulisti IKEA kemur út á morgun með lækkuðu verði á 1.200 vörum. Mynd/HAG
Tólfhundruð vörur lækka í verði og vöruverð stendur í stað á milli ára að meðaltali hjá húsgagnaversluninni IKEA á Íslandi. Á morgun fá landsmenn nýjan vörulista inn um lúguna frá versluninni. Vörulistinn markar upphaf nýs rekstrarárs hjá IKEA, nýtt verð tekur gildi og fyrirtækið skuldbindur sig að halda verðinu óbreyttu í eitt ár.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem IKEA hefur sent frá sér.

Árið 2008 varð IKEA að hækka áður auglýst vöruverð um 25% að meðaltali. „Hækkunin kom í kjölfar hrunsins en það var í fyrsta skipti í sögu IKEA sem verð á vörulista var hækkað. Núna lækkum við verðið á vinsælum vörum og viljum þannig leyfa viðskiptavinum okkar að njóta þess að innkaupsverð hefur í einhverjum tilfellum lækkað og krónan styrktist nokkuð fyrr á þessu ári. Enda er stefna IKEA að selja fleiri vörur á ódýru verði en færri vörur á hærra verði,“ segir Stefán Rúnar Dagsson, verslunarstjóri IKEA.

En hækkar verðið aftur ef krónan veikist verulega? „Hæsta mögulega verðið er gefið upp á vörulistanum og verður ekki hækkað. Síðast varð algjört hrun, við búumst ekki við slíku aftur. Við erum bjartsýn,“ segir Stefán Rúnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×