Viðskipti innlent

Hagnaður KEA 279 milljónir í fyrra

Hagnaður KEA á síðasta ári nam 279 milljónum króna eftir skatta en var 161 milljón króna árið áður.

Þetta kemur fram á vefsíðu félagsins. Þar segir að tekjur félagsins voru 443 milljónir króna og jukust töluvert á milli ára sem má að stórum hluta til rekja til þess að fasteignarekstur félagsins er nú í samstæðuuppgjöri þess.  Heildareignir í lok árs voru um 5 milljarðar króna og eigið tæplega fé 4,7 milljarðar kr.   

„Rekstur félaga sem KEA á eignarhluti í hélt áfram að batna á síðasta ári líkt og á árinu á undan, það er gleðiefni og vonandi verður framhald á því,“ segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri félagsins á vefsíðunni.

„Hinsvegar er vandkvæðum bundið að ná ásættanlegri raunávöxtun á laust fé.  Áfram var unnið í að afla fjárfestingavalkosta sem mæta stefnu félagsins en framboð verkefna hefur verið með minna móti á sama tíma og margir aðilar og miklir fjármunir leita eftir áhugaverðum valkostum.  Þessi staða hefur áhrif á verðþróun eigna til hækkunar vegna takmarkaðs framboðs en án þess að verðmætaaukning í undirliggjandi rekstri hafi átt sér stað.  Það er fátt sem bendir til þess að þetta muni breytast í bráð og því verður áfram krefjandi verkefni að ná góðri ávöxtun á eignir félagsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×