Viðskipti innlent

Sala á nautakjöti hefur aukist um 5,5%

Landssamtök sláturleyfishafa hafa tekið saman nýjar framleiðslu- og sölutölur kjötgreina fyrir maí þar sem m.a. kemur fram að sala á nautakjöti sl. 12 mánuði,  júní 2012-maí 2013, nam 4.235 tonnum sem er 5,5% meira en 12 mánaða tímabilið þar á undan.  Þá kemur fram í samantektinni að framleiðslan hafi, á sama tímabili, numið 4.247 tonnum sem er aukning um 5,9% miðað við tímabilið júní 2011-maí 2012.

Þetta kemur fram á vefsíðu Landssambands kúabænda. Þar segir að heildarframleiðsla nautgripakjöts í maí mánuði var 376 tonn sem skiptist þannig að 217 tonn var ungnautakjöt eða 57,9% af heildar framleiðslunni. Kýrkjöt var 140 tonn eða 36,2% af heildinni.

Horft til annarra kjöttegunda kemur fram í samantektinni að heildarsalan á landinu öllu hefur aukist sl. 12 mánuði um 3,5%. Mest er sem fyrr salan á alifuglakjöti eða 7.960 tonn (32,1%) og þar á eftir kemur lamba- og kindakjöt með 6.501 tonn eða 26,2% markaðshlutdeild.

Það sem af er árinu hefur verið flutt inn 59% meira af kjöti til landsins en á sama tímabili árið 2012 og munar þar mestu um stóraukinn innflutning á svínakjöti miðað við fyrra ár. Alls nemur innflutt kjöt 473 tonnum, þar af 285 tonn af alifuglakjöti og 149 tonn af svínakjöti. Innflutningur á nautakjöti er heldur meiri  það sem af er þessu ári eða 25 tonn sem er 5,5% aukning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×