Viðskipti innlent

Hluta af ákæru gegn Björk vísað frá

Björk Þórarinsdóttir sætir enn ákæru í málinu þótt hún hafi dregist saman.
Björk Þórarinsdóttir sætir enn ákæru í málinu þótt hún hafi dregist saman.
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur vísaði í dag frá hluta af ákæru sérstaks saksóknara á hendur Björk Þórarinsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá Kaupþingi.

Björk er í hópi níu fyrrverandi starfsmanna Kaupþings sem sæta ákæru fyrir allsherjarmarkaðsmisnotkun í bankanum fyrir hrun.

Björk sat í lánanefnd bankans og var ákærð fyrir að taka ákvörðun um tvær lánveitingar til hlutabréfakaupa í bankanum, annars til félagsins Holt Investment Group, í eigu Skúla Þorvaldssonar, og hins vegar Desulo Trading, í eigu Egils Ágústssonar.

Síðari hlutanum, þeim er varðaði Desulo Trading, var vísað frá vegna þess að réttarstöðu Bjarkar var breytt úr sakborningi í vitni og aftur til baka við meðferð málsins án þess að nokkrar nýjar upplýsingar hefðu komið fram, að mati dómara.

Björn Þorvaldsson var ekki ósammála niðurstöðu dómara.
Saksóknarinn Björn Þorvaldsson andmælti niðurstöðunni ekki. Spurður hvort það þýði að hann hafi verið sammála henni svarar Björn játandi. „Það var að minnsta kosti nokkur fótur fyrir henni,“ segir hann.

Í þinghaldinu í dag var einnig ákveðið að verjendur fengju sjö mánaða frest til að skila greinargerðum í málinu, til 14. janúar næstkomandi. Aðalmeðferð er ekki áætluð fyrr en á vormánuðum 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×