Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið hefur markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum

Bensínstöð. Athugið að myndin er úr safni.
Bensínstöð. Athugið að myndin er úr safni.

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að hefja markaðsrannsókn á íslenska eldsneytismarkaðnum, samkvæmt tilkynningu frá eftirlitinu.

Markaðsrannsókn er nýtt form rannsóknar, sem felur í sér athugun á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns.

Meðal annars verður sérstakur ráðgjafahópur myndaður. Í honum verða Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands, og Þorkell Helgason, stærðfræðingur og fyrrverandi Orkumálastjóri.

Samkeppniseftirlitið áætlar að íslensk heimili hafi keypt bensín og díselolíu fyrir um 42 milljarða króna á árinu 2011. Ef bensín- og díselverð, án skatta og annarra opinberra gjalda, á árunum 2005-2011 er miðað við vegið meðalverð í aðildarríkjum Evrópusambandsins kemur í ljós að verð á bensíni á Íslandi var um 20% hærra og verð díselolíu um 15% hærra. Verð bensíns og díselolíu er að jafnaði með því hæsta sem þekkist í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins.

Í tengslum við rannsóknina hefur Samkeppniseftirlitið gefið út rannsóknaráætlun en þar verður meðal annars skoðað aðgangs- og vaxtarhindrun sem getur falist í þeim mikla kostnaði sem fylgir því að reisa birgðastöð. Þá verður einnig meðal annars skoðað samstarf, eignarhald og stjórnunartengsl þeirra fyrirtækja sem starfa á eldsneytismarkaðnum.

Á fyrri hluta árs 2014 gerir Samkeppniseftirlitið ráð fyrir því að upplýsingaöflun og mati eftirlitsins á gögnum verði lokið og birt verði svokölluð frummatsskýrsla um mitt sama ár. Í henni verður meðal annars tekin afstaða til þess hvort Samkeppniseftirlitið telji að taka þurfi íþyngjandi ákvörðun í kjölfar markaðsrannsóknarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×