Viðskipti innlent

Tölvupósturinn var dýrkeyptur

Jóhannes Stefánsson skrifar
Senda þarf bréf til að lýsa kröfum.
Senda þarf bréf til að lýsa kröfum.
Þýski fjárfestingasjóðurinn Hansa Spezial tapaði í gær máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn þrotabúi Kaupþings banka hf.

Málið snerist um hvort kröfu sem nam sex milljónum evra, jafnvirði tæplega milljarðs íslenskra króna, hefði verið rétt lýst í þrotabúið og þar með hvort eitthvað fengist greitt upp í kröfuna.

Málsatvik voru þau að slitastjórn Kaupþings hf. gaf út innköllun til kröfuhafa þann 30. júní 2009.

Kröfulýsing hafði ekki borist þann 29. desember og starfsmaður slitastjórnar sendi kröfuhafanum Hansa Spezial áminningu þess efnis í tölvupósti og benti á að einungis yrði litið á frumrit kröfulýsingar sem bærist bréflega sem fullnægjandi kröfulýsingu.

Þá benti starfsmaðurinn Hansa Spezial á að leysa mætti málið með því að ráða íslenskan lögmann til að útbúa kröfulýsinguna hið snarasta.

Kröfuhafinn fór hins vegar ekki að þessum leiðbeiningum heldur sendi tölvupóst og fór þess á leit að krafan yrði tekin til greina.

Bréf þess efnis barst svo slitastjórninni þann 4. janúar 2010, fjórum dögum eftir að kröfulýsingarfrestur rann út.

Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt lögum þurfi kröfulýsing að vera skrifleg og það eigi sér styrka stoð í réttarframkvæmd og sé engum vafa undirorpið.

Kröfulýsing með tölvupósti sé því ekki gild og kröfu Hansa Spezial hafnað.

Ekki náðist í lögmann Hansa Spezial við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×