Handbolti

Ólafur magnaður í Meistaradeildinni

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson fór á kostum í liði Flensburg í dag er liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Ólafur skoraði fjögur glæsileg mörk í fjórum skotum. Lagði einnig upp mörk er Flensburg vann tveggja marka sigur, 27-25, á slóvenska liðinu Gorenje Velenje. Flensburg vann fyrri leik liðanna með þrem mörkum og fór því örugglega áfram.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en gestirnir þó skrefi á undan. Þeir leiddu með einu marki í leikhléi, 13-14.

Gestirnir settu spennu í leikinn í síðari hálfleik er liðið var lengi vel með tveggja marka forskot. Heimamenn komu þó til baka undir lokin, snéru leiknum sér í hag og unnu fínan sigur.

Ungverska liðið Veszprém tryggði sér einnig sæti í átta liða úrslitin í dag. Liðið vann þá stórsigur, 25-33, á Ademar Leon og vann rimmu liðanna samtals 56-45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×