Viðskipti innlent

Hagnaður Regins hf. eykst töluvert á milli ára

Hagnaður Regins hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins eftir skatta var 243 milljónir króna. Þetta er töluvert betri afkoma en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 138 milljónum kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjörið. Þar segir að  rekstrartekjur námu 882 milljón króna. Handbært fé frá rekstri nam 440 milljónum króna. Fjárfestingareignir voru metnar á 32,8 milljarða króna og eiginfjárhlutfall er 33%.

„Afkoma Regins á fyrsta ársfjórðungi ársins var góð og í samræmi við áætlun félagsins,“ segir í tilkynningunni.

„Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok fyrsta ársfjórðungs  átti Reginn 34 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 170 þúsund fermetrar og þar af voru 150 þúsund útleigjanlegir fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var yfir 96%. Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×