Viðskipti innlent

Smámálameðferð athuguð í haust

Jóhannes Stefánsson skrifar
Smámálameðferð gæti flýtt fyrir í dómskerfinu.
Smámálameðferð gæti flýtt fyrir í dómskerfinu. Fréttablaðið/Pjetur
Athugun á því hvort innleiða megi svokallaða smámálameðferð í íslenskt dómskerfi mun hefjast í haust. Þetta segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu.

„Þessi vinna fer af stað með haustinu í tengslum við stefnumörkun í neytendamálum hér á landi,“ segir Steinunn.

Hún var formaður starfshóps um skipulag neytendamála sem skilaði af sér skýrslu í desember síðastliðnum. Starfshópurinn lagði til að hafin yrði „vinna innan innanríkisráðuneytis við að skoða frekari útfærslur á smámálameðferð,“ sem nú stendur til að hefja.

Hún segir smámálameðferð geta falið í sér mikla framför fyrir neytendur, enda felur hún í sér hraðari og einfaldari úrlausn smærri deilumála fyrir dómstólum.

„Það hefur aldrei verið mörkuð neytendastefna á Íslandi. Það er til opinber stefna í fjarskiptum og samgöngum og ýmsu öðru en ekki í neytendamálum. Ráðuneytið ætlar að fara af stað með þá vinnu og í tengslum við það verða skoðaðar útfærslur á þessari smámálameðferð,“ segir Steinunn.

Hún segir smámálameðferð þekkta á hinum Norðurlöndunum.

Hvað eru smámál?

Smámál hafa ekki verið skilgreind í íslenskum lögum en í meistararitgerð Aldísar Geirdal við lagadeild Háskólans í Reykjavík um smámálameðferð eru smámál skilgreind sem mál þar sem stefnufjárhæð er undir tveimur milljónum.

„Smámálameðferð felur í sér einfaldari og hraðari málsmeðferð fyrir dómstólum ef hagsmunirnir eru undir ákveðnu viðmiðunarmarki eða ef dómari telur forsvaranlegt að reka málið samkvæmt reglum smámálameðferðar,“ segir Aldís Geirdal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×