Viðskipti innlent

Eyrir tapar á fyrri helmingi árs

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson
Árni Oddur Þórðarson
Allnokkur viðsnúningur er í hálfsársuppgjöri fjárfestingarfélagsins Eyris Invest á milli ára.

Tap félagsins fyrst sex mánuði ársins nemur 25,4 milljónum evra (um fjórum milljörðum króna), miðað við 18,3 milljóna evra (2,9 milljarða króna) hagnað á fyrri helmingi 2012.

Fram kemur í tilkynningu félagsins til Kauphallar að heildareignir félagsins nemi 355 milljónum evra, eða 56,3 milljörðum króna. Eigið fé er sagt um 162 milljónir evra (25,7 milljarðar króna) og eiginfjárhlutfallið 46 prósent.

Kjarnaeignir Eyris Invest eru 29 prósenta hlutur í Marel 17 prósenta hlutur í Stork TS og Fokker í Hollandi. Að auki fjárfestir Eyrir í sprotafyrirtækjum í gegn um dótturfélag sitt, Eyrir Sprotar.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Eyris Invest, að þótt niðurstaðan fyrstu sex mánuði ársins séu óviðunandi þá trúi félagið á að virðisauki fáist úr eignasafninu á næstu tveimur til þremur árum. „Kjarnaeignir okkar eru allar í iðnaði þar sem er vöxtur og samkeppnisstaða þeirra er góð,“ er eftir honum haft.

Afkomutölur Eyris litast af lækkuðu bókfærðu virði Stork TS, en breytingin er gerð vegna slaks rekstrar Stork á fyrsta ársfjórðungi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×