Viðskipti innlent

Veltan eykst í Kauphöllinni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í ágústlok nam virði skráðra félaga 489 milljörðum króna, 165 milljörðum meira en í ágúst í fyrra.
Í ágústlok nam virði skráðra félaga 489 milljörðum króna, 165 milljörðum meira en í ágúst í fyrra. Fréttablaðið/Stefán
Viðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Iceland) í ágúst námu 18.818 milljónum króna eða um 896 milljónum á dag. Fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar að aukningin nemi 70 prósentum á milli mánaða, en í júli nam dagveltan 527 milljónum króna.

Aukningin er hins vegar 348 prósent á milli ára. Í ágúst í fyrra var hlutabréfavelta í Kauphöllinni um 200 milljónir króna á dag.

Mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair Group 5.936 milljónir, Vátryggingafélags Íslands 3.568 milljónir, Marel 2.456 milljónir og Tryggingamiðstöðvarinnar 2.370 milljónir.

„Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 1,98 prósent milli mánaða og stendur nú í 1.157 stigum,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

Þá kemur fram að á aðalmarkaði Kauphallarinnar hafi Íslandsbanki með mestu hlutdeildina í ágúst 27,7 prósent. Þar á eftir koma Landsbankinn með 19,4 prósenta hlutdeild og og MP Banki með 18,2 prósent.

Viðskipti með skuldabréf í ágúst námu 83 milljörðum króna, sem samsvarar 3,9 milljarða veltu á dag. „Þetta er 66 prósenta lækkun á milli ára, samanborið við 11,5 milljarða veltu á dag í ágúst 2012, og 8 prósent lækkun frá fyrri mánuði (viðskipti í júlí námu 4,3 milljörðum á dag).“

Í lok ágúst voru hlutabréf 17 félaga skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar og First North Iceland. Heildarmarkaðsvirði þeirra var 489 milljarðar króna, samanborði við 324 milljarða króna virði skráðra félaga í ágúst 2012.

Frekari upplýsingar er að finna á vef Kauphallarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×