Viðskipti innlent

Starfsmenn Landsbankans fá 4,7 milljarða í sinn hlut

Bókfært virði þeirra hlutabréfa sem renna skulu til starfsmanna Landsbankans er 4,7 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung ársins. Þar segir að rétt sé að hafa í huga að stór hluti fjárhæðarinnar rennur til ríkisins í formi skatta.  Unnið er að útfærslu fyrirkomulags dreifingar á hlutabréfum til starfs­manna. Slíkt fyrirkomulag skal vera í samræmi við reglur FME og er einnig háð samþykki hluthafafundar.

Í tilkynningunni segir: „Þann 15. desember 2009 gerðu Landsbankinn hf. (þá NBI hf.), LBI hf. (þá Landsbanki Íslands hf.) og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins samning um fjárhagsuppgjör milli Landsbankans hf. og LBI hf., svokallaður FABIA samningur. Að kröfu LBI hf. og með samþykki ríkisins var Landsbank­anum gert að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir alla starfsmenn sem tæki mið af verðmæti tiltekinna eignasafna stærri fyrirtækja sem lágu til grundvallar ákvörðunar á fjárhæð skilyrts skuldabréfs sem er hluti af fjár­hagsuppgjörinu.

Samkvæmt þessu samkomulagi skyldi LBI hf. ráðstafa af eign búsins og þar með eign kröfuhafa allt að 2% eignarhlut í bankanum sem dreift yrði til starfsmanna samkvæmt úthlutunarreglum sem Landsbankinn skyldi koma á. Markmið að baki kerfinu náðust að fullu og var samþykkt á hluthafa­fundi Landsbankans hf. 27. mars 2013 og staðfest með samkomulagi aðila að FABIA samningnum í apríl, að afhenda framangreinda hluti til Lands­bankans með þeirri kvöð að þeim skyldi dreift til starfsmanna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×