Viðskipti innlent

Stöðva þarf áform um einokum í akstri til og frá Leifsstöð

Samkeppniseftirlitið segir að stöðva þurfi áform um einokun í áætlunarakstri milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur. Af þessum ástæðum hefur eftirlitið beint þeim tilmælum til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar að leita þegar í stað allra leiða til að stöðva áform Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um að koma á einokun á leiðinni.

Í tilkynningu segir að í dag hafi Samkeppniseftirlitið beint áliti til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar um alvarlegar samkeppnishindranir sem felast í einkaleyfi sem Vegagerðin hefur veitt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) til þess að sinna áætlunarakstri á svæðinu, þar á meðal á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) og Reykjavíkur.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki lagalegar forsendur til þess að stöðva með bindandi hætti samninga SSS, sem ætlað er að koma á einokun á áætlunarleiðinni.

Álit þetta kemur í framhaldi af kvörtunum Kynnisferða, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar.

Af þessum sökum beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til innanríkisráðherra að hann taki nú þegar til endurskoðunar fyrrgreindar breytingar á lögum nr. 73/2001. Við þá endurskoðun verður að finna leiðir til þess að sveitarfélög skipuleggi og samræmi almenningssamgöngur innan og á milli byggðarlaga, án þess að hindra samkeppni og um leið skaða hagsmuni almennings og ferðaþjónustunnar. Í því sambandi er mikilvægt að skilgreina almenningssamgöngur gagnvart ferðaþjónustu og koma í veg fyrir að samtök sveitarfélaga geti komið á einokun á áætlunarleiðum milli byggðarlaga sem skila hagnaði. Við þá endurskoðun verður að gæta að skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Allra leiða leitað

Samkeppniseftirlitið beinir því einnig til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar að leita þegar í stað allra leiða til þess að stöðva áform SSS um að koma á einokun á áætlunarleiðinni milli FLE og Reykjavíkur, sem grundvallast umræddum lögum og samningi Vegagerðarinnar og SSS um einkaleyfi á leiðinni. Telji þau sig ekki hafa heimild til slíkrar íhlutunar er mælst til þess að leitað verði atbeina löggjafans þegar í stað.

Þá hefur Samkeppniseftirlitið beint því til SSS að stöðva þegar í stað fyrrgreind áform sín um einokun á áætlunarleiðinni milli FLE og Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×