Viðskipti innlent

Bjóða út byggingarrétt í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási

Borgarráð hefur ákveðið að efna til sölu byggingarréttar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási með nýjum skilyrðum. Horfið er frá sölu lóða á föstu verði með viðbótargjaldi en þær þess í stað boðnar út.  Kaupendum byggingaréttar er boðið upp á staðgreiðsluafslátt eða afborgunarlaus lán fyrstu þrjú árin sem bera enga vexti  fyrsta hálfa árið.   

Í tilkynningu segir að í boði séu 127 lóðir með byggingarrétti fyrir 271 íbúð. Með opnu tilboðsferli er jafnræðis gætt meðal þeirra sem áhuga hafa á lóðum í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási. Tilboðum þarf að skila í síðasta lagi 1. júlí.

Framundan er mikil uppbygging þjónustumannvirkja fyrir Úlfarsárdal og Grafarholt. Byggja á nýjan skóla og nýja sundlaug fyrir almenning og skólasund. Sundlaug með útisvæði og heitum pottum verður opin almenningi en jafnframt verður lítil innilaug sem hentar til æfinga, kennslu og ungbarnasunds. Auk uppbyggingar á íþróttasvæði verður byggt nýtt íþróttahús til æfinga og keppni með áhorfendaaðstöðu. Í hönnunarsamkeppni um þessi mannvirki er einnig gert ráð fyrir rými fyrir menningarstarfsemi sem hluta af heildarþjónustunni með góðar tengingar við aðra starfsemi.

Nýir greiðsluskilmálar fyrir lóðir í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási fela í sér að greitt er 10% staðfestingargjald og eftirstöðvar eru lánaðar til 8 ára, afborgunarlausar fyrstu 3 árin og án vaxta fyrsta hálfa árið. Verðtryggt veðskuldabréf ber  4,5% vexti, en óverðtryggt veðskuldabréf ber samsvarandi vexti og óverðtryggð lán hjá Seðlabanka Íslands. Veðskuldabréf eru gefin út á 1. veðrétt og er greitt af þeim einu sinni á ári. Í tilviki lögaðila er hámark á útgáfu veðskuldabréfs 80% af kaupverði byggingarréttar og greiðist í því tilviki að lágmarki 20% staðfestingargjald. Lóðir sem eru staðgreiddar fást hins vegar með 7% staðgreiðsluafslætti.

Hæstbjóðendur í lóðir verða að skila inn upplýsingum um fjárhagslega stöðu sína fjórum vikum eftir að tilboðsfrestur rennur út.  Einstaklingar þurfa að sýna  fram á greiðsluhæfi að upphæð 45 milljónir í einbýlishús, 40 milljónir í raðhús og 25 milljónir á íbúð í fjölbýli. Lögaðilar þurfa að sýna fram á jákvæða eiginfjárstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×