Viðskipti innlent

Vinna ensím úr þorski í Grindavík

Nýverið var sett á laggirnar ensímvinnsla í Codland-fullvinnsluklasanum í Grindavík. Ensímin eru unnin úr innyflum þorsksins en rannsóknir hafa sýnt að þau hafa einstaka eiginleika og nýtast í ýmiskonar vörur og áframvinnslu.

Í tilkynningu segir að vinnslan sé til húsa í vinnsluhúsi Vísis hf. Codland varð upphaflega til upp úr samstarfi fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans en ensímvinnslan er samstarfsverkefni Codlands og Bergs Benediktssonar frumkvöðuls sem hefur unnið að rannsóknum og þróun á ensím- og bragðefnavinnslu um áratugaskeið.

Ensímvinnslan mun meðal annars sjá Ensímtækni ehf og nýrri verksmiðju Codlands ehf. á Reykjanesi fyrir ensímum. Ensímtækni framleiðir meðal annars hinar virtu Pensím snyrtivörur sem dr. Jón Bragi Bjarnason þróaði fyrst.

Stefnt er að því að efla ensímvinnsluna á komandi misserum og leggja áherslu á að framleiðsluvörur fyrirtækisins eru allar unnar úr sjálfbæru, rekjanlegu og fyrsta flokks hráefni.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×