Viðskipti innlent

Hagnaður Skipta eftir skatta var 466 milljónir króna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í skýringum með árshlutauppgjöri Skipta kemur fram að í Hæstarétti sé tekist á um skattauppgjör félagsins og frestun á skatti. Frestaður skattur nemur tæplega 2,3 milljörðum króna.
Í skýringum með árshlutauppgjöri Skipta kemur fram að í Hæstarétti sé tekist á um skattauppgjör félagsins og frestun á skatti. Frestaður skattur nemur tæplega 2,3 milljörðum króna. Fréttablaðið/Stefán
Viðsnúningur er í hagnaðartölum Skipta (móðurfélags Símans og fleiri fyrirtækja) eftir fyrri árshelming samkvæmt nýbirtu uppgjöri. Hagnaður félagsins nemur 466 milljónum króna en á sama tíma í fyrra tapaði félagið 2,6 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu félagsins að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, án einskiptisliða, hafi numið 4,2 milljörðum króna, samanborið við 3,8 milljarða á fyrri hluta árs 2012.

Þá lækka vaxtaberandi skuldir félagsins úr 62,1 milljarði í 27,2 milljarða. Eiginfjárhlutfall er 56,6 prósent en var 10,2 prósent fyrir ári.

Fram kemur að einskiptisliðir á fyrri hluta ársins hafi verið 160 milljóna króna kostnaður vegna endurfjármögnunar, en í fyrra hafi verið um að ræða 440 milljón króna samkeppnissekt.

Haft er eftir Steini Loga Björnssyni, forstjóri Skipta, í tilkynningu félagsins að áfram sé unnið á grundvelli áætlunar sem miðar að því að hámarka arðsemi rekstrarfélaga Skipta. Hann bendir á að fjárhagslegri endurskipulagningu hafi lokið undir lok tímabilsins.

Lægri fjármagnskostnaður vegna þessa skili sér af fullum þunga á síðari hluta ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×