Viðskipti innlent

Landsvirkjun skilar rúmlega sex milljarða tapi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. vísir/vilhelm
Landsvirkjun tapaði 6,3 milljörðum króna fyrstu sex mánuði þessa árs að því er fram kemur í árshlutareikningi fyrirtækisins. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður upp á rétt rúman milljarð. Í tilkynningu segir að tapið í ár megi rekja til svokallaðra gangvirðisbreytinga á innbyggðum ál-afleiðum orkusölusamninga. Handbært fé frá rekstri nam 16,1 milljarði og er það 13,8% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að grunnreksturinn, raforkuvinnsla og afhending hafi gengið vel á fyrri hluta ársins. Þá sé afkoma á fyrri árshelmingi viðunandi í ljósi efnahagsástands í heiminum.

„Það er ánægjulegt að við sjáum aukningu í handbæru fé frá rekstri sem endurspeglar styrkleika fyrirtækisins og getu þess til að standa undir skuldbindingum sínum. Nettó skuldir fyrirtækisins halda áfram að lækka, nú um 30 milljónir USD og hafa nettó skuldir fyrirtækisins því lækkað um samtals 418 milljónir USD á síðastliðnum fjórum árum sem eru jákvæð tíðindi. Engu að síður er  mikilvægt  að haldið verði áfram á sömu braut í ljósi skuldsetningar fyrirtækisins," segir Hörður ennfremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×