Viðskipti innlent

Skip HB Granda fá rúm 11 prósent af heildarúthlutun

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 11,2 prósent af heildinni.
Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 11,2 prósent af heildinni. mynd/GVA
Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 sem hófst í dag. Samtals er úthlutað 381.431 tonni í þorskígildum til 627 skipa og fer mest aflamark til Brimness RE 27, rúm 9.500 þorskígildistonn, um 2,5 prósent af úthlutuðum þorskígildum.

Samkvæmt tilkynningu frá Fiskistofu fá fimmtíu stærstu fyrirtækin úthlutað sem nemur um 86% af því sem úthlutað er og vex hlutur þeirra um 0,8 prósent á milli ára. Alls fá 488 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða einum fleiri en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 11,2 prósent af heildinni, næst kemur Samherji með 6,8 prósent og þá Þorbjörn hf. með 5,5 prósent. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.

Þá skera þrjár heimahafnir sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert meira úthlutað í þorskígildum en aðrar. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 13.3 prósent af heildinni samanborið við 14,2 prósent í fyrra. Næstmest fer til Vestmannaeyja eða 11,2 prósent og þá til skipa með heimahöfn í Grindavík, eða 8,4 prósent af heildinni.

Á vef Fiskistofu má sjá heildarskrá yfir úthlutun aflamarks til einstakra skipa, rækju- og skelbætur ársins og yfirlitsskjal þar sem hægt er að skoða úthlutunina út frá margvíslegum sjónarhornum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×