Viðskipti innlent

Jákvæð afkoma hjá Hafnarfjarðarbæ

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hagstæð gengisþróun á tímabilinu gerði það að verkum að fjármagnsliðir voru talsvert lægri en áætlun Hafnarfjarðarbæjar gerði ráð fyrir
Hagstæð gengisþróun á tímabilinu gerði það að verkum að fjármagnsliðir voru talsvert lægri en áætlun Hafnarfjarðarbæjar gerði ráð fyrir
Rekstrarniðurstaða A hluta bæjarsjóðs Hafnarfjarðar á fyrstu sex mánuðum ársins er jákvæð um rúmar 407 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A og B hluta um 722 milljónir króna.

Hagstæð gengisþróun á tímabilinu gerði það að verkum að fjármagnsliðir voru talsvert lægri en áætlun bæjarins gerði ráð fyrir, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ um árshlutauppgjörið. Þar segir að niðurstaðan sé í samræmi við fjárhagsáætlun bæjarins.

„Veltufé frá rekstri í A hluta er um 582 milljónum króna og í A og B hluta nemur það um 977 milljónum króna. Heildareignir A hluta námu í júnílok 37.051 milljónum króna, skuldir og skuldbindingar 33.121 milljónum og eigið fé nam 3.930 milljónum króna. Heildareignir A og B hluta voru í lok tímabilsins 47.665 milljónir króna, skuldir og skuldbindingar 40.576 milljónir og eigið fé 7.089 milljónir króna. Á tímabilinu námu fjárfestingar um 120,2 milljónum króna og greiddar afborganir á tímabilinu 848 milljónum króna.

Rekstur Hafnarfjarðarbæjar skiptist í A og B hluta. A hluti samanstendur af aðalsjóði, eignasjóði og GN eignum ehf. Í aðalsjóði er rekstur málaflokka og þjónusta við íbúa bæjarins sem fjármögnuð er með skatttekjum og þjónustugjöldum. Í eignasjóði er haldið utan um rekstur, viðhald og stofnframkvæmdir fasteigna og gatna. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki og rekstrareiningar sem eru í eigu bæjarins og fjármagnaðar með þjónustutekjum sem eru; Vatnsveita Hafnarfjarðar, Fráveita Hafnarfjarðar, Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarhöfn," segir í fréttatilkynningu bæjarins.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, þakkar þar öguðu starfsumhverfi og samhentu átaki stjórnenda og starfsfólks bæjarins fyrir jákvæða afkomu.

„Verkefnið framundan er að styrkja þessa fjárhagsstöðu enn frekar og byggja á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður á undanförnum árum,“ segir Guðrún Ágústa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×