Viðskipti innlent

Aukin bjartsýni hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja

Haraldur Guðmundsson skrifar
Frá fundi Samtaka atvinnulífsins 2011.
Frá fundi Samtaka atvinnulífsins 2011. Mynd/Vilhelm Gunnarsson.
Stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru talsvert bjartsýnni á horfur íslensks hagkerfis þegar horft er til næstu tólf mánaða heldur en í mælingum síðustu ára. Tæpur þriðjungur þeirra telur að starfsmönnum eigi eftir að fjölga og 61% að launakostnaður muni aukast.

Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var á tímabilinu 19. júní til 2. júlí og náði til 571 einstaklings.

Af þeim stjórnendum sem tóku afstöðu sögðust 70,5% telja að íslenska hagkerfið muni vaxa á næstu tólf mánuðum, samanborið við 39,9% aðspurðra í mars 2012 og 32,4% í september 2011. Að auki voru þeir bjartsýnni en áður á aukna arðsemi, veltu og eftirspurn eftir vöru eða þjónustu. 63,6% íslenskra stjórnenda sem tóku afstöðu telja að velta síns fyrirtækis muni aukast á næstu tólf mánuðum, samanborið við 54,5% í mars 2012, og 47,5% telja að arðsemi síns fyrirtækis eigi eftir að aukast á sama tímabili, samanborið við 37% aðspurðra í mars 2012. Að auki sögðust 58,3% stjórnenda telja að eftirspurn eftir vöru eða þjónustu síns fyrirtækis muni aukast næsta árið, borið saman við 47,4% í mars 2012.

Einnig fjölgar hlutfallslega þeim stjórnendum sem telja að samkeppnishæfni síns fyrirtækis muni aukast á næstu tólf mánuðum, eða um 44,3% aðspurða, samanborið við 36,9% í september 2011. 44,4% stjórnenda telja að markaðsstarf síns fyrirtækis muni aukast á næstu tólf mánuðum, borið saman við 30,5% í apríl 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×