Viðskipti innlent

Hagnaður TM eykst um helming

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Fóð afkoma Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrri helmingi árs.
Fóð afkoma Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrri helmingi árs.
Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar hf.(TM) hefur aukist um 47 prósent  frá því á sama tíma í fyrra, er segir í hálfs árs uppgjöri fyrirtækisins sem kom út í gær. Heildarhagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.191 milljón króna en var 811 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2012. Framlegð af vátryggingastarfsemi nam 779 milljónum borið saman við 451 milljón króna á sama tíma árið 2012.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, er ánægður með niðurstöðuna. Hann segir að aukin framlegð af vátryggingastarfseminni skýrist fyrst og fremst af því að viðskiptavinum hefur fjölgað nokkuð á fyrri helmingi ársins á sama tíma og tjónakostnaður hefur lækkað.

Sigurður bendir þó á að þrátt fyrir góða niðurstöðu á fyrri helmingi ársins sé erfitt að spá fyrir um framtíðina, þar eðli starfsemi vátryggingafélags sé að takast á við sveiflur. „Stórt tjón var til að mynda í lok júlí og ætla má að áhrif þess á afkomu TM nemi um 180 milljónum króna fyrir skatta.“

Sigurður segir að framtíð fyrirtækisins sé björt. „Erlendir vátryggingamarkaðir hafa tekið hækkun á lánshæfismati TM, frá því í febrúar síðastliðnum, mjög vel og við skynjum mikinn áhuga og aukin viðskipti í erlendri starfsemi félagsins,“ segir Sigurður og bætir við að lánshæfismat TM sé lykillinn að þeim viðskiptum.

Lánshæfismat TM var hinsvegar dregið niður af lánshæfismati íslenska ríkisins fyrr í mánuðinum og var því breytt úr stöðugum í neikvæðar horfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×