Viðskipti innlent

Fimm veitingastaðir brutu reglur um verðmerkingar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Matseðla vantaði við inngang fimm veitingastaða af þeim 97 sem skoðaðir voru.
Matseðla vantaði við inngang fimm veitingastaða af þeim 97 sem skoðaðir voru. mynd/gva
Fulltrúar Neytendastofu fóru í júlí á 97 veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu og könnuðu hvort farið væri eftir reglum um verðmerkingar. Skoðað var hvort matseðill með verðupplýsingum væri við inngöngudyr og hvort magnupplýsingar drykkja kæmu fram.

Samkvæmt reglum um verðmerkingar ber veitingahúsum að hafa matseðil með verði við inngöngudyr sínar svo neytendur geti kynnt sér vöruúrval og verð áður en þeim er vísað til borðs. Í flestum tilvikum var matseðill við inngang, eða á 92 veitingastöðum af 97. Á fimm stöðum var þó enginn matseðill við inngang, en það voru staðirnir Grillhúsið, Íslenska hamborgarafabrikkan, Kopar, Lebowski Bar og Sushi samba.

Erfitt getur verið að átta sig á verðinu ef magns er ekki getið. Til þess að neytendur geti betur áttað sig á verðinu á að gefa upp magn á drykkjarföngum hvort sem það er í flösku eða glasi, auk verðs. Á  14 veitingastöðum vantaði magnupplýsingar á verðskrá drykkja.

Einnig var skoðað hvort að vínmálin væru löggilt og þar af leiðandi að mæla rétt. Verða niðurstöður þeirrar skoðunar birtar síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×