Viðskipti innlent

Legókubbar fyrir fullorðna

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Lego-kubbar fyrir fullorðna eru loks komnir á markað. Þessi nýjasta vara danska leikfangafyrirtækisins byggir á íslensku hugviti og er ætlað að virkja sköpunargáfu fólks vítt og breitt um heiminn.

Það er íslensk-danska arkitektastofan KRADS sem ber ábyrgð þessari nýjung en hún markar viss tímamót í framleiðslusögu LEGO. Varan hefur hlotið nafnið LEGO Architecture Studio og inniheldur 1.200 hvíta Lego-kubba. Markmiðið er að virkja sköpunargáfuna og um leið veita innsýn í hönnunarferla arkitekta. Þar af leiðandi má sjá heldur óvanalega aldursmerkingu á kassanum, plús sextán.

„Þetta er sérstaklega skemmtilegt fyrir okkur þar sem það eru engar leiðbeiningar," segir Kristján Þór Kjartansson, hjá KRADS. „Í staðinn fylgir 270 blaðsíðna bók um arkitektúr ásamt hugmyndum um hvernig maður kemur sköpunargáfunni á flug. Lego fólk út um allan heim hefur sýnt þessu áhuga."

LEGO Architecture Studio er afrakstur um þriggja ára starfs KRADS en arkitektastofna ferðaðist vítt og breitt um heiminn með vinnustofur sínar þar sem LEGO-kubbar er efniviðurinn. Í vinnustofunum er sköpunargleðinni gefinn laus taumur, í bland við leik og krefjandi hindranir sem kubbarnir veita.

„Í raun og veru er þetta hugsað sem innblástur fyrir þá sem eru að fara kubba og búa til áhugaverð meistaraverk. Það verður virkilega gaman að sjá hvernig þessu verður tekið."

LEGO Architecture Studio fór í sölu í Bandaríkjunum í gær en ekki er vitað hvenær dönsku LEGO-guðirnir bænheyra Íslendinga. Kristján er þó sannfærður um að verkefnið muni ganga vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×