Viðskipti innlent

Fjármálaráðherra segir óheppilegt að vaxtaafsláttur Íslandsbanka skerði vaxtabætur

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mynd/pjetur
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir óheppilegt að afsláttur sem Íslandsbanki gaf skilvirkum viðskiptavinum sínum á vöxtum lána þeirra, verði til þess að vaxtabætur þessa hóps skerðist. Ríkisskattstjóri hafi tekið þetta mál til skoðunar.

„Og ég ætla að ræða það við ríkisskattstjóra hvort það séu einhverjar aðrar leiðir til að nálgast þetta. Það er óheppilegt að þeir sem helst hefðu þurft á stuðningi að halda, einmitt þeir sem eru að fá vaxtabætur, geti ekki notið stuðnings eða góðs af aðgerðum eins og þessum, sem Íslandsbanki er að reyna að nota til að létta undir með fólki,“ segir Bjarni.

Hins vegar verði að hafa í huga að stór hluti viðskipavina bankans hafi notið góðs af vaxtaafslætti hans. Ríkisskattstjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að þessi afsláttur Íslandsbanka myndaði ekki skattstofn. En er hægt að gera eitthvað til þess að ætlun bankans um að létta undir með skilvirkum viðskiptavinum bankans nái fram að ganga?

„Eins og ég segi þá hefur stór mjög hópur  notið aðgerða bankans með beinum hætti. En hvort við getum gert breytingar á vaxtabótaútgreiðslunni, sem tekur ekkert tillit til þess hver er raunverulegur vaxtakostnaður viðskiptamanna,  skal ég ekki segja til um. En það er eitt af því sem ég er að skoða,“ segir fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×