Viðskipti innlent

Gagnrýna ákvörðun Standard & Poor's

Höskuldur Kári Schram skrifar
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að ákvörðun matsfyrirtæksins Standard & Poor's um að breyta lánshæfishorfum íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar hafi ekki áhrif á þau áform  ríkisstjórnarinnar að lækka skuldir heimilanna. Matsfyrirtækið óttast að þetta kunni að skaða ríkissjóð og traust erlendra fjárfesta á Íslandi. 

Lánshæfismat ríkissjóðs er óbreytt bæði hvað varðar skammtíma og langtíma skuldbindingar en matsfyrirtækið breytir hins vegar horfunum úr stöðugum í neikvæðar. Þessi breyting þýðir að ríkissjóður er aðeins einu þrepi frá því að lenda ruslflokki.

Standard og Poor's telur að boðaðar niðurfærslur á verðtryggðum skuldum heimilanna kunni að leiða til verri afkomu ríkissjóðs. Verði skuldaniðurfærslan fjármögnuð með afskriftum skulda gömlu bankanna við lánadrottna gæti það skaðað traust erlendra fjárfesta á Íslandi. Þá sé ekki útilokað að skuldir einkageirans verði færðar yfir á hið opinbera með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir ríkissjóð.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, gagnrýnir þetta mat en segir hins vegar mikilvægt að lánshæfiseinkunn Íslands haldist óbreytt.

„Mér finnst þeir fara dálítið fram úr sér þegar þeir meta forsendur fyrir horfunum. Þeir  fara að mínu mati fra úr sér með því að áætla að aðgerðir vegna skuldsettra heimila muni íþyngja ríkissjóði um of eða menn muni standa þannig að afnámi haftanna að það muni skaða orðspor Íslands. Það er engin ástæða til að ætla þetta,“ segir Bjarni.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra tekur í sama streng og segir að þetta muni ekki breyta áformum ríkisstjórnarinnar að lækka skuldir heimilannna.

„Það sem þetta segir okkur er að það kann að vera að hagsmunir heimilanna, hagsmunir íslenska þjóðarbúsisins og hagsmunir kröfuhafa fari ekki saman í þessu máli og það hefur legið fyrir í langan tíma,“ segir Eygló.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×