Viðskipti innlent

Arðgreiðslunni ekki rift - þarf ekki að endurgreiða fjóra milljarða

Valur Grettisson skrifar
Pálmi Haraldsson má vel við una, enda sigraði hann í þremur dómsmálum í dag.
Pálmi Haraldsson má vel við una, enda sigraði hann í þremur dómsmálum í dag.
Pálmi Haraldsson var sýknaður í fjórum mismunandi málum þrotabúss Fons gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Öll málin voru riftunarmál vegna Fons.

Skiptastjórinn hafði þó betur í einu máli, en það varðaði kröfu á Feng vegna ofgreiddrar húsaleigu upp á 25 milljónir króna.

Hæsta upphæðin sem skiptastjóri þrotabúsins vildi að yrði rift, og endurgreidd að auki, voru fimm greiðslur upp á rúma fjóra milljarða til Matthews Holding SA árið 2007. Um var að ræða arðgreiðslur.

Í því máli var Matthew holdings einnig stefnt auk Jóhannesi Kristinssyni, en hann átti hlut í Fons áður en félagið fór í þrot.

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur hafnaði því svo að rifta 13 greiðslum upp á tæplega 50 milljónir króna til eignarhaldsfélags á Tortola. Um var að ræða greiðslur sem voru færðar ýmist sem leigugreiðslur eða endurgreiðsla á kostnaði í bókhaldi Fons hf.

Að lokum var Pálmi sýknaður af kröfu þrotabúsins um að greiðslu upp á fimm milljónir til Sigurðar braga Guðmundssonar yrði rift.

Allar greiðslurnar sem skiptastjóri reyndi að rifta áttu sér stað á árunum 2007 til 2008.

Fréttastofa greindi frá því árið 2010 að Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, eignarhaldsfélags Pálma, vildi rifta alls 11 samningum um lán og arðgreiðslur út úr félaginu síðustu tvö árin fyrir bankahrun. Um var að ræða samninga og greiðslur upp á samtals níu milljarða króna.

Kröfur í þrotabúið námu þá alls 40 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×