Viðskipti innlent

Vilja ekki bæta ryðgalla í Range Rover

Valur Grettisson skrifar
Range Rover.
Range Rover.
„Þetta er stórtjón, það kostar hátt í hálfa milljón að gera við þetta, þó ég viti ekki nákvæmlega hvað viðgerðin kostar,“ segir bílaáhugamaðurinn Ársæll Ármannsson, en hann uppgötvaði fyrir tilviljun að Range Rover sem hann keypti úr þrotabúi árið 2010 væri með alvarlegan galla í hlera í afturhluta bílsins.

Bíllinn, sem er af gerðinni Range Rover HSE, var framleiddur árið 2007, og þykir mörgum hann vera ein af táknmyndum hrunsins.

Ársæll er ósáttur við að hann þurfi að standa straum af tjóninu, en umboðið fyrir Range Rover hér á landi tryggir bílana í fimm ár, eftir það þarf eigandinn að borga allan kostnað sjálfur. Bíll Ársæls er því nýrunninn úr ábyrgð.

Samkvæmt upplýsingum frá umboðinu er þetta ekki fyrsti bíllinn sem kemur til þeirra með ryð á þessum stað, um er að ræða galla við framleiðslu. Þó er aðeins um örfá tilvik að ræða, „þau eru innan við tíu,“ sagði Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs B&L sem fer með umboð fyrir Range Rover.

Hann benti hinsvegar á að fyrirtækið byði viðskiptavinum sínum viðgerð á kostakjörum, sé bifreiðin runnin úr ábyrgð.

Ársæll segir þetta ekki nægja. Hann telur að gallinn hafi orðið til við framleiðslu bílsins,  og fyrirtækið eigi að bæta skaðann að fullu. Sjálfur hefur hann haft samband við FÍB vegna málsins og segist tilbúinn að fara alla leið með það. Ársæll spyr svo hversu mikið af eigendum samskonar bíla, sem nú eru komnir úr ábyrgð, eigi við sama vanda að etja, enda erfitt að sjá ryðið.

„Það er borðleggjandi, held ég, að ef það væru dómkvaddir matsmenn fengnir til þess að skoða þetta, þá væru þeir sammála mér,“ segir Ársæll að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×